[Helga kviða Hundingsbana II]

Frá völsungum

Electronic edition by Adalsteinn Davidsson, 5 Nov 1994

Sigmundur konungur Völsungsson átti Borghildi af Brálundi. Þau hétu son sinn Helga og eftir Helga Hjörvarðssyni. Helga fóstraði Hagall.

Hundingur hét ríkur konungur. Við hann er Hundland kennt. Hann var hermaður mikill og átti marga sonu þá er í hernaði vóru. Ófriður og dylgjur vóru á milli þeirra Hundings konungs og Sigmundar konungs. Drápu hvorir annarra frændur. Sigmundur konungur og hans ættmenn hétu Völsungar og Ylfingar.

Helgi fór og njósnaði til hirðar Hundings konungs á laun. Hemingur, sonur Hundings konungs, var heima. En er Helgi fór í brott, þá hitti hann hjarðar[svein] og kvað:

1. "Segðu Hemingi
að Helgi man
hvern i brynju
bragnar felldu.
Ér úlf gráan
inni höfðuð,
þar er Hamal hugði
Hundingur konungur."

Hamall hét sonur Hagals. Hundingur konungur sendi menn til Hagals að leita Helga en Helgi mátti eigi forðast annan veg en tók klæði ambáttar og gekk að mala. Þeir leituðu og fundu eigi Helga. Þá kvað Blindur inn bölvísi:

2. "Hvöss eru augu
í Hagals þýju;
er-a það karls ætt,
er á kvernum stendur,'
steinar rifna
stökkur lúður fyrir.

3. Nú hefir hörð dæmi
hildingur þegið,
er vísi skal
valbygg [mala].
Heldur er sæmri
hendi þeirri
meðalkafli
en möndultré."

Hagall svaraði og kvað:

4. "Það er lítil vá
þótt lúður þrumi
er mær konungs
möndul hrærir.
Hún skævaði
skýjum efri
og vega þorði
sem víkingar,
áður hana Helgi
höftu gerði.
Systir er hún þeirra
Sigars og Högna;
því hefir ötul augu
Ylfinga man."

Undan komst Helgi og fór á herskip. Hann felldi Hunding konung og var síðan kallaður Helgi Hundingsbani. Hann lá með her sinn í Brunavogum og hafði þar strandhögg og átu þar [h]rátt. Högni hét konungur. Hans dóttir var Sigrún. Hún var valkyrja og reið loft og lög. Hún var Svá[va] endurborin. Sigrún reið að skipum Helga og kvað:

5. "Hverir láta fljóta
fley við bakka?
Hvar, hermegir,
heima eiguð?
Hvers bíðið ér
í Brunavogum?
Hvert lystir yður
leið að kanna?"

Helgi kvað:
6. "Hamall lætur fljóta
fley við bakka,
eigum heima
í Hléseyju,
bíðum byrjar
í Brunavogum,
austur lystir oss
leið að kanna."

Sigrún kvað:
7. "Hvar hefir þú, hilmir,
hildi vakta
eða gögl alin
Gunnar systra?
Hví er brynja þín
blóði stokkin?
Hví skal und hjálmum
hrátt kjöt eta?"

Helgi kvað:
8. "Það vann næst nýs
niður Ylfinga
fyr vestan ver,
ef þig vita lystir,
er eg björnu tók
í Bragalundi
og ætt ara
oddum saddag.

9. Nú er sagt, mær,
hvaðan sakar gerðust,
því var á legi mér
lítt steikt etið."

Sigrún kvað:
10. "Víg lýsir þú,
varð fyr Helga
Hundingur konungur
hníga að velli.
Bar sókn saman
er sefa hefnduð
og busti blóð
á brimis eggjar."

Helgi kvað:
11. "Hvað vissir þú,
að þeir sé,
snót svinnhuguð,
er sefa hefnduÐ?
Margir eru hvassir
hildings synir
og ámunir
ossum niðjum."

Sigrún kvað:
12. "Vark-a eg fjarri,
folks oddviti,
gær á morgun
grams aldurlokum.
Þó tel eg slægjan
Sigmundar bur,
er í valrúnum
vígspjöll segir.

13. Leit eg þig um sinn fyrr
á langskipum,
þá er þú byggðir
blóðga stafna
og úrsvalar
unnir léku.
Nú vill dyljast
döglingur fyr mér,
en Högna mær
[Helga] kennir."

Granmar hét ríkur konungur er bjó að Svarinshaugi. Hann átti marga sonu: Höðbroddur, annar Guðmundur, þriðji Starkaður. Höðbroddur var í konungastefnu. Hann fastnaði sér Sigrúnu Högnadóttur. En er hún spyr það þá reið hún með valkyrjur um loft og um lög að leita Helga.

Helgi var þá að Logafjöllum og hafði barist við Hundings sonu. Þar felldi hann þá Álf og Eyjólf, Hjörvarð og Hervarð, og var hann allvígmóður og sat undir Arasteini. Þar hitti Sigrún hann og rann á háls honum og kyssti hann og sagði honum erindi sitt, svo sem segir í Völsungakviðu inni fornu:

14. Sótti Sigrún
sikling glaðan,
heim nam hún Helga
hönd að sækja,
kyssti og kvaddi
konung und hjálmi;
þá varð hilmi
hugur á vífi.

15. Fyrr lést hún unna
af öllum hug
syni Sigmundar
en hún séð hafði.

16. "Var eg Höðbroddi
í her föstnuð
en jöfur annan
eiga vildag.
Þó sjáumk, fylkir,
frænda reiði,
hefi eg míns föður
munráð brotið."

17. Nam-a Högna mær
um hug mæla,
hafa kvaðst hún Helga
hylli skyldu.

Helgi kvað:
18. "Hirð eig þú
Högna reiði
né illan hug
ættar þinnar.
Þú skalt, mær ung,
að mér lifa;
ætt áttu, in góða,
er eg eigi sjáumk."

Helgi safnaði þá miklum skipaher og fór til Frekasteins og fengu í hafi ofviðri mannhætt. Þá kvómu leiftur yfir þá og stóðu geislar í skipin. Þeir sá í loftinu að valkyrjur níu riðu og kenndu þeir Sigrúnu. Þá lægði storminn og kvómu þeir heilir til lands.

Granmarssynir sátu á bjargi nokkuru er skipin sigldu að landi. Guðmundur hljóp á hest og reið á njósn á bergið við höfnina. Þá hlóðu Völsungar seglum. Þá kvað Guðmundur Granmarsson:

19. "Hver er skjöldungur
sá er skipum stýrir,
lætur gunnfána
gullinn fyr stafni?
Þykkja mér friður
í fararbroddi,
verpur vígroða
um víkinga.

Sinfjötli kvað:
20. "Hér má Höðbroddur
Helga kenna,
flótta trauðan
í flota miðjum.
Hann hefur eðli
ættar þinnar,
arf Fjörsunga,
und sig þrungið.

Guðmundur kvað:
21. "Því fyrr skulu
að Frekasteini
sáttir saman
um sakar dæma.
Mál er, Höðbroddur,
hefnd að vinna
ef vér lægra [h]lut
lengi bárum."

Sinfjötli kvað:
22. "Fyrr muntu, Guðmundur,
geitur um halda
og bergskorar
brattar klífa,
hafa þér í hendi
heslikylfu.
Það er þér blíðara
en brimis dómar.

Helgi kvað:
23. "Þér er, Sinfjötli,
sæmra miklu
gunni að heyja
og glaða örnu
en ónýtum
orðum að deila,
þótt hildingar
heiftir deili.

24. Þykki-t mér góðir
Granmars synir,
þó dugir siklingum
satt að mæla.
Þeir merkt hafa
á Móin[sheimum]
að hug hafa
hjörum að bregða;
eru hildingar
helsti snjallir.

Guðmundur reið heim með hersögu. Þá söfnuðu Granmarssynir her. Kómu þar margir konungar. Þar var Högni, faðir Sigrúnar, og synir hans, Bragi og Dagur. Þar var orrusta mikil og féllu allir Granmarssynir og allir þeirrra höfðingjar nema Dagur Högnason fékk grið og vann eiða Völsungum.

Sigrún gekk í valinn og hitti Höðbrodd að kominn dauða. Hún kvað:

25. "Mun-a þér Sigrún
frá Sefafjöllum
Höðbroddur konungur,
hníga að armi.
Liðin er ævi
- oft náir hreifi [hrævi?]
gránstóð gríðar -
Granmars sona."

Þá hitti hún Helga og varð allfegin. Hann kvað:

26. "Er-at þér að öllu,
alvitur, gefið,
þó kveð eg nökkvi
nornir valda
féllu í morgun
að Frekasteini
Bragi og Högni,
varð eg bani þeirra.

27. En að Styrkleifum
Starkaður konungur,
en að Hlébjörgum
Hrollaugs synir.
Þann sá eg gylfa
grimmúðgastan,
er barðist bolur,
var á brott höfuð.

28. Liggja að jörðu
allra flestir
niðjar þínir
að nám orðnir.
Vannt-at-tu vígi,
var þér það skapað
að þú að rógi
ríkmenni vart."

Þá grét Sigrún. Hann kvað:

29. "Huggastu, Sigrún,
Hildur hefir þú oss verið;
vinna-t skjöldungar sköpum."

Sigrún kvað:
"Lifna mynda eg nú kjósa
er liðnir eru,
og knætta eg þér þó í faðmi felast."

Helgi fékk Sigrúnar og áttu þau sonu. Var Helgi eigi gamall. Dagur Högnason blótaði Óðin til föðurhefnda. Óðinn léði Dag geirs síns. Dagur fann Helga, mág sinn, þar sem heitir að Fjöturlundi. Hann lagði í gegnum Helga með geirnum. Þar féll Helgi en Dagur reið til [Sefa]fjalla og sagði Sigrúnu tíðindi.

30. "Trauður em eg, systir,
trega þér að segja,
því að eg hefi nauðigur
nifti grætta;
féll í morgun
und Fjöturlundi
buðlungur sá er var
bestur í heimi
og hildingum
á hálsi stóð."

Sigrún kvað:
31. "Þig skyli allir
eiðar bíta
þeir er Helga
hafðir unna
að inu ljósa
Leiftrar vatni
og að úrsvölum
unnar steini.

32. Skríði-at það skip
er und þér skríði
þótt óskabyr
eftir leggist;
renni-a sá mar
er und þér renni
þóttú fjándur þína
forðast eigir.

33. Bíti-a þér það sverð
er þú bregðir
nema sjálfum þér
syngvi um höfði.

Þá væri þér hefnt
Helga dauða
ef þú værir vargur
á viðum úti,
auðs andvani
og alls gamans,
hefðir eigi mat
nema á hræjum spryngir."

Dagur kvað:
34. "Ær ertu, systir,
og örvita
er þú bræður þínum
biður forskapa.
Einn veldur Óðinn
öllu bölvi
því að með sifjungum
sakrúnar bar.

35. Þér býður bróðir
bauga rauða,
öll Vandilsvé
og Vígdali;
hafðu hálfan heim
harms að gjöldum,
brúður baugvarið
og burir þínir."

Sigrún kvað:
36. "Sitk-a eg svo sæl
að Sefafjöllum
ár né um nætur
að eg una lífi
nema að liði lofðungs
ljóma bregði,
renni und vísa
Vígblær þinig,
gullbitli vanur,
knega eg grami fagna.

37. Svo hafði Helgi
hrædda görva
fjándur sína alla
og frændur þeirra
sem fyr úlfi
óðar rynni
geitur af fjalli
geiskafullar.

38. Svo bar Helgi
af hildingum
sem íturskapaður
askur af þyrni
eða sá dýrkálfur
döggu slunginn
er efri fer
öllum dýrum
og horn glóa
við himin sjálfan."

Haugur var gjör eftir Helga. En er hann kom til Valhallar þá bauð Óðinn honum öllu að ráða með sér. Helgi kvað:

39. "Þú skalt, Hundingur,
hverjum manni
fótlaug geta
og funa kynda,
hunda binda,
hesta gæta,
gefa svínum soð
áður sofa gangir."

Ambátt Sigrúnar gekk um aftan hjá haugi Helga og sá að Helgi reið til haugsins með marga menn. Ambátt kvað:

40. "Hvort eru það svik ein,
er eg sjá þykkjumst,
eða ragnarök,
ríða menn dauðir
er jóa yðra
oddum keyrið
eða er hildingum
heimför gefin?"

Helgi kvað:
41. "Er-a það svik ein,
er þú sjá þykist,
né aldar rof
þóttú oss lítir,
þótt vér jóa óra
oddum keyrim,
né er hildingum
heimför gefin."

Heim gekk ambátt og sagði Sigrúnu:

42. "Út gakk þú, Sigrún
frá Sefafjöllum,
ef þig fólks jaðar
finna lystir.
Upp er haugur lokinn,
kominn er Helgi,
dólgspor dreyra,
döglingur bað þig
að þú sárdropa
svefja skyldir."

Sigrún gekk í hauginn til Helga og kvað:

43. "Nú em eg svo fegin
fundi okkrum
sem átfrekir
Óðins haukar
er val vitu,
varmar bráðir,
eða dögglitir
dagsbrún sjá.

44. Fyrr vil eg kyssa
konung ólifðan
en þú blóðugri
brynju kastir.
Hár er þitt, Helgi,
hélu þrungið,
allur er vísi
valdögg sleginn,
hendur úrsvalar
Högna mági.
Hve skal eg þér, buðlungur,
þess bót um vinna?"

Helgi kvað:
45. "Ein veldur þú, Sigrún
frá Sefafjöllum,
er Helgi er
harmdögg sleginn;
grætur þú, gullvarið,
grimmum tárum,
sólbjört, suðræn,
áður sofa gangir.
Hvert fellur blóðugt
á brjóst grami,
úrsvalt, innfjálgt,
ekka þrungið.

46. Vel skulum drekka
dýrar veigar,
þótt misst hafim
munar og landa!
Skal engi maður
angurljóð kveða
þótt mér á brjósti
benjar líti.
Nú eru brúðir
byrgðar í haugi,
lofða dísir
hjá oss liðnum."

Sigrún bjó sæng í hauginum.

47. "Hér hefi eg þér, Helgi,
hvílu görva
angurlausa mjög,
ylfinga niður.
Vil eg þér í faðmi,
fylkir, sofna
sem eg lofðungi
lifnum myndag."

Helgi kvað:
48. "Nú kveð eg einskis
örvænt vera
síð né snemma
að Sefafjöllum
er þú á armi
ólifðum sefur,
hvít, í haugi,
Högna dóttir,
og ertu kvik
in konungborna.

49. Mál er mér að ríða
roðnar brautir,
láta fölvan jó
flugstíg troða;
skal eg fyr vestan
vindhjálms brúar
áður Salgófnir
sigurþjóð veki."

Þeir Helgi riðu leið sína en þær fóru heim til bæjar. Annan aftan lét Sigrún ambátt halda vörð á hauginum. En að dagsetri er Sigrún kom til haugsins, hún kvað:

50. "Kominn væri nú
ef koma hygði
Sigmundar bur
frá sölum Óðins;
kveð eg grams þinig
grænast vonir
er á asklimum
ernir sitja
og drífur drótt öll
draumþinga til."

Ambátt kvað:
51. "Vertu eigi svo ær
að ein farir,
dís skjöldunga,
draughúsa til;
verða öflgari
allir á nóttum
dauðir dólgar, mær,
en um daga ljósa."

Sigrún varð skammlíf af harmi og trega.

Það var trúa í forneskju að menn væri endurbornir en það er nú kölluð kerlingavilla. Helgi og Sigrún er kallað að væri endurborin. Hét hann þá Helgi Haddingjaskati en hún Kára Hálfdanardóttir, svo sem kveðið er í Káruljóðum, og var hún valkyrja.

[legal] [privacy] [GNU] [policy] [cookies] [netiquette] [sponsors] [FAQ] [man]


Polarhome, production since 1999.
Member of Polarhome portal.


Vote for polarhome
Free Shell Accounts :: the biggest list on the net